Specialisterne 10 ára í dag, 2. apríl

Að fylla fyrsta tuginn er stórt fyrir alla og fyrir okkur hjá Specialisterne er það líka svo. Við erum gríðarlega stolt af því að vera búin að sanna tilverurétt okkar og við erum komin til að vera. Vera til staðar fyrir einstaklinga á einhverfurófinu, 18 ára og eldri, sem kerfið hefur e.t.v. ekki sinnt sem skyldi.

Sjálfseignarstofnunin Specialisterne á Íslandi var stofnuð haustið 2010, meðal annars í samstarfi við Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis og með stuðningi í gegnum Leonardo-menntaáætlun ESB. Formleg opnun starfseminnar var síðan á alþjóðlegum degi einhverfu, 2. apríl 2011. Frá þeim tíma hafa um 166 einstaklingar verið hjá okkur í lengri eða skemmri tíma. Okkur hefur á starfstímanum tekist að finna 75 störf fyrir 54 einstaklinga, en flestir þeirra höfðu enga eða litla reynslu af vinnumarkaði.

Þótt markmiðið hafi í upphafi verið, öðru fremur, að skapa atvinnutækifæri fyrir skjólstæðinga okkar hefur áhersla á félagslega þáttinn orðið meiri og meiri eftir því sem tíminn hefur liðið. Við höfum lagt áherslu á að hjálpa einstaklingum úr kyrrstöðu í virkni, að finna styrkleika og hæfileika hvers og eins og finna réttan farveg þeirra inn á vinnumarkaðinn. Með því að rækta styrkleika, frekar en að einblína á veikleika, er hægt að skapa atvinnutækifæri fyrir mun stærri hóp en í dag er að finna á vinnumarkaði. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja gætu prófað að hugsa störf í fyrirtækjum á nýjan hátt, t.d. hvernig hægt sé að skapa, í auknu mæli, fleiri störf fyrir starfsmenn með sérstaka hæfileika eða skerta starfsorku.

Síðustu ár höfum við komið fjölda einstaklinga sem hafa verið langtímaatvinnulausir í vinnu. Þakklæti og hvatning aðstandenda þeirra hvetur okkur áfram, en hér eru dæmi um hvatningu til okkar:

 

Úr þakkarbréfum foreldra til Specialisterne

 

„Erum Specialisterne ævinlega þakklát fyrir þeirra miklu vinnu fyrir einstaklinga á einhverfurófi.“

„Það var ýtt undir þroska og sjálfsálit hjá mínum unglingi.“

„Specialisterne er stór þáttur í framförum dóttur okkar.“

„Specialisterne hafa opnað nýja mikilsverða möguleika sem byggja þarf á til framtíðar.“

„Mikill sigur fyrir son okkar að geta verið á vinnumarkaði, fá laun og borga skatta og skyldur.“

„Aðkoma Specialisterne hefur haft afgerandi og ómetanlega þýðingu fyrir unga einstaklinga á einhverfurófi sem eru í atvinnuleit.“

„Specialisterne hafa hjálpað einstaklingum á einhverfurófi til aukinna lífsgæða.“

„Markmiðið hefði ekki náðst án stuðnings Specialisterne.“

„Specialisterne opnuðu á tækifæri fyrir dóttur okkar til að komast á hinna almenna vinnumarkað.“

„Erum Specialisterne ævinlega þakklát fyrir þeirra miklu vinnu fyrir einstaklinga á einhverfurófinu.“

„Okkar ósk er að Specialisterne geti starfað áfram um ókomin ár.“

 

Við vonum að þessi hvatningarorð verði þér líka hvatning til að leggja málstað okkar lið og styðja okkur inn í framtíðina.

Fyrir hönd Specialisterne á Íslandi þökkum við styrktar- og samstarfsaðilum okkar, en þeir stærstu eru Vinnumálastofnun, Virk, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Reitir fasteignafélag. Þá hefur fjöldi fyrirtækja veitt skjólstæðingum okkar atvinnutækifæri og það þökkum við sömuleiðis vel fyrir. Fjöldi einstaklinga hefur sömuleiðis stutt okkur fjárhagslega svo eftir er tekið. Næsta haust munum við bjóða til afmælisviðburðar sem óhjákvæmilega er ekki hægt að halda núna.

Bjarni Torfi Álfþórsson, framkvæmdarstjóri Specialisterne, og Hjörtur Grétarsson, stjórnarformaður Specialisterne.

Endilega deila á samfélagsmiðla:
Facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedintumblr